mercredi 12 décembre 2007

Að gifta sig í Egyptalandi var skemmtileg og ógleymanleg upplifun. Ekki það að gifting er líklegast alltaf skemmtileg og ógleymanleg upplifun, þessi var hinsvegar jafn framandi fyrir mig, brúðurina sem og þá rúmlega tuttugu Íslendinga sem lögðu land undir fót til að samgleðjast mér og manninum mínum á þessari stundu.

Við höfðum búið í París þar sem við kynntumst í þrjú ár. Maðurinn minn hafði einu sinni komið með mér til Íslands og ég hafði einnig einu sinni heimsótt Egyptaland með honum. Samkvæmt egypskum siðavenjum búa ógift hjón ekki saman né gista í sama herbergi á ferðalögum. Þó svo að við byggjum saman í Evrópu var það ekki almenn vitneskja innan fjölskyldunnar. Það var því dagljóst að gifting var ofarlega á forgangslistanum hjá okkur þar sem við stefndum á að eyða lífinu saman.

Ákvörðunin um hvar giftingin og veislan skildi haldin var ekki erfið. Jafnvel þó svo ég hafi séð fyrir mér giftingu í guðsgrænni íslenskri náttúru hér áður fyrr, berfætt með blóm í hárinu, þá kom Egyptaland inn sem augljósasti kosturinn sérstaklega hvað veðurfar varðaði enda langaði okkur bæði til að halda veisluna utandyra.

Næsta skref var að ákvarða hvenær veislan skyldi haldin. Sumarið þegar flestir eru í fríum fannst mér ekki koma til greina þar sem Kaíró verður ólífvænleg af hita. Mér fannst ég ekki geta gert íslenskum foreldrum mínum það að bjóða upp á slíkt. Jólin voru annar tími sem kæmi til greina en jólabarninu mér fannst ég myndi skemma jólin með því að halda upp á þau með giftingu í Kaíró.

Úr varð að gifta sig um páskana 2007 í byrjun apríl sem er táknrænn tími fyrir okkur þar sem okkar fyrsta stefnumót var 4. apríl 2004. Við héldum því upp á þriggja ára samveru með því að gifta okkur í viðurvist fjölskyldu og vina sem gerðu dagana ógleymanlega.

Egyptaland er sérstakt ekki bara að því leyti að Marwan er egypskur heldur vegna þess að Egyptar voru fyrstir þjóða til að lögbinda giftingu konu og karls og til merkis um þá lögbindingu settu hjónin upp gullhringa sem tákn um eilífðleikann. Egyptar litu á giftinguna sem borgaralegt og löglegt samband tveggja einstaklinga. Þessi fyrstu lög sögðu til um réttindi og skyldur hjóna. Þau veittu báðum aðilum einnig réttindi til að slíta giftingunni, konum jafnt sem körlum. En konan var mikils metin og hafði háa stöðu í samfélaginu.

Þrátt fyrir að landið hafi gengið í gegnum fjölmörg áhrifaskeið eins og frá Grikkjum, Rómverjum og nú seinast íslam eru gömlu egypsku giftingarhefðirnar enn ráðandi að miklu leyti í dag. Íslamskar giftingarhefðir eru frekar einfaldar og að mestu byggðar á tveimur megin þáttum. Í fyrsta lagi á samþykki brúðhjónanna eða fulltrúa þeirra að bindast í hjónabandi. Í öðru lagi er það að aðstandendur eða vitni séu að samningnum.

Egypsku trúlofunar- og giftingarhefðirnar sem haldist hafa að miklu leyti óbreyttar frá því á miðöldum stangast því á við hinn einfalda tón sem íslamstrúin boðar. Hinsvegar hefur trúlofunartímabilið orðið í mörgum tilfellum mun lengra en áður var þar sem undirbúningurinn að koma sér fyrir í nýju húsi er bæði dýrt og margar fjölskyldur efnalitlar. Sem getur komið sér illa fyrir ung pör sem samkvæmt íslam mega hvorki búa né sofa saman fyrir giftinguna, þ.e. áður en þau hafa eignast húsnæði og veisla haldin.

Til sveita hafa hefðirnar breyst minna en í borgunum. Í Kaíró og öðrum borgum er veislan yfirleitt haldin í einu af hótelum borgarinnar. Evrópskar hefðir hafa haft sín áhrif á borgarbrúðkaupin þar sem brúðurin er klædd hefðbundnum evrópskum hvítum brúðarkjól og brúðguminn í svörtum jakkafötum með bindi. Brúðarkaka er skorin að vestrænum sið, brúðarvendi er kastað til hóps ógiftra kvenna og svo mætti áfram telja.

Hefðbundin egypsk gifting byrjar á því að foreldrar biðilsins heimsækja foreldra stúlkunnar til að biðja um samþykki þeirra fyrir ráðahagnum og til að ná samkomulagi fyrir Mahr, peningaupphæð greidda af fjölskyldu brúðguma til fjölskyldu brúðar, ætluð til að hjálpa til við kaup á húsgögnum handa tilvonandi brúði. Og Shabka, skargripur gefin af tilvonandi brúðguma til brúðar sinnar sem fer eftir fjárhag fjölskyldu brúðgumans.

Giftingin er tvíþætt, annars vegar er það undirskriftin sjálf, hins vegar er það veislan sem fullgildir samninginn. Einnig tíðkast að konur láti skreyta á sér hendur og fætur með henna málningu daginn fyrir giftinguna á svokallaðri Henna Nótt Leylet el-henna. Konurnar, systur, vinkonur og nágrannakonur fara á heimili brúðarinnar og eiga saman kvöldstund þar sem hendur og fætur tilvonandi brúðar eru málaðar með Henna, tímabundnu húðflúri sem helst á í um 2 vikur. Daginn eftir er giftingarsamningurinn undirritaður og skráður af presti í hofi að viðstöddum brúðhjónunum og sem flestum af fjölskyldum þeirra og vinum. Þessar veislur geta oft orðið ansi viðamiklar. Þar sem við giftum okkur upp á evrópskan máta (samkvæmt Egyptum) og Henna er hvorki hefð hjá mér né mínum vinkonum sleppti ég allri slíkri skreytingu. Foreldrar okkar höfðu heldur engin samráð með hvorki Shabka né Mahr.

Undirskriftin getur farið fram samdægurs veislunni eða löngu áður allt eftir því hvernig fjárhagur leyfir að halda veisluna. Undirskriftin getur farið fram í mosku eða í heimahúsi og er þá á heimili foreldra brúðarinnar. Giftingarsamningurinn er undirritaður af maazon, manni með opinbert leyfi til slíkra starfa. Í okkar tilfelli af augljósum ástæðum var hinsvegar brugðið út af vananum og fór undirskriftin fram á heimili tengdaforeldra minna í Kaíró.

Trúarleg gifting fer þannig fram að maazon fer með langa bæn, hann tekur hönd brúðgumans og leggur við hönd föður brúðarinnar og leggur bænaklút yfir hendurnar. Maazon fer með aðra bæn og skiptast brúðguminn og faðir brúðarinnar á að endurtaka upphátt, þegar við á, hluta af því sem maazon segir og er þeirra hluti af samningum sem gerður er. Með þessu er faðir brúðarinnar að gefa brúðgumanum leyfi til að giftast dóttur hans og taka ábyrgð á henni.

Brúðurin og brúðguminn haldast í hendur undir bænaklútnum og hljóta blessun sem tengir parið hjóna-böndum. Að þessu loknu er klútnum, líkt og brúðarvendi kastað í átt til viðstaddra einstæðra kvenna og sú heppna sem grípur klútinn er sögð gifta sig flótlega. Þar sem við giftum okkur borgaralega var þessari fallegu athöfn sleppt. Skriffinninn sem gaf okkur saman var embættismaður frá borgarskrifstofunum í Kaíró sem kom sér hratt að verki.

Undirskriftina voru viðstaddir nánasta fjölskylda okkar beggja sem taldi um 40 manns. Allir prúðbúnir og ég í léttum hvítum sumarkjól. Hvítur klæðnaður á hinni tilvonandi brúður er ekki venja samkvæmt egypskum venjum við þetta tækifæri. Hverskonar fínn klæðnaður er gjaldgengur, mér fannst þetta hinsvegar viðeigandi einnig sem kjóllinn var sumarlegur og léttur, sjálfsagt í þeim stíl sem ég hefði valið mér fyrir brúðkaupið mitt í hinni guðsgrænu íslensku náttúru.

Spenningur og gleði lágu í loftinu innanhúss, steikjandi hitinn utanhúss. Skriffinnanum lét sér hinsvegar fátt um finnast, hann var opinber starfsmaður og við vorum sjálfsagt seinasta verk hans áður en hann kæmist í helgarfrí þá vikuna. Öfugt við það sem ég hafði ímyndað mér var hann klæddur í vinnuskyrtu, kakíbuxur og bar skítuga skó. Hann var heldur ekki að brosa né gleðjast með okkur. Þetta var sem hver önnur vinna hjá honum og rómantík kom henni greinilega hvergi við. Giftingar samningurinn var gerður í 5 eintökum með passamyndum af hvoru okkar, upplýsingum um dagsetningu, nöfn foreldra, vitna, loks undirskrift okkar beggja með fingrafari. Eitt eintak yrði handa hvoru okkar og 3 eintök fyrir skrifræðið og skjalasöfnin eftir að búið væri að yfirfara og samþykkja eða þinglýsa.

Strax að lokinni undirskriftinni fyrir framan skriffinnann enn með bláan þumalinn af stimpilpúðanum oppnaði maðurinn minn bláa öskju sem borin var fram í lokaðri dökkblárri skál af móður systir hans sem innihélt þrjá hringa. Þessi bláa þrenna er einstök tilviljun og ekkert sem segir að blár litur sé frekar bundin þessu tilefni en hver annar litur. Tveir hringar voru hefðbundnir gullhringar með nöfnum og dagsetningu áletruðum innaní og á milli þeirra var shabka skartgripurinn minn, hvítagullshringur alsettur demöntum.

Eftir að gullhringarnir voru dregnir upp á vinstri baugfingur, hinn hefðbundna fyrsta koss og fallegt ástarljóð sungið af íslenskum vinum var glaðst saman í mat og drykk. Eitt aðalmálið í slíkum undirskriftarveislum er súkkulaði og samkvæmt hefðinni er það er brúðguminn sem kemur með það í veisluna. Fjölmargar búðir í Kaíró séfhæfa sig í slíku súkkulaði og öðru sem að slíkum veislum kemur. Súkkulaði er sætt og því tilvalið á gleðistundum eins og undirskriftum og fæðingarveislum.


Súkkulaðimolar í skreyttum umbúðum er borið fram á bakka sem oftar en ekki er silfurbakki. Í Kaíró eru fjölmargar búðir sem sérhæfa sig í slíkum súkkulaðimolum og skreytingum á bökkum. Sætt bragð er bragð gleðistunda og hátíða á meðan rammt bragð er bragð sorgarstunda eins og jarðarfara og minningarathafna þar sem borið er fram kaffi, svart og sykurlaust.

Þar sem giftingin yrði ekki fullgild fyrr en eftir stóru veisluna kvöldið eftir hélt ég heim á leið á hótelið með foreldrum, vinum og ættingjum en maðurinn minn varð eftir í foreldrahúsum. Þessi nótt var skrítin. Var ég gift kona? Jú ég var með gullhring á hendi með nafni unnusta míns en dagsetningu morgundagsins. Við erum gift, en samt ekki enn.

Föstudagurinn 6. apríl rann upp með fádæma veðurblíðu. Borð og stólar voru komin á sinn stað í garðinum og fjöldi manns vann við undirbúninginn og allt leit fullkomlega út og undir góðri stjórnun. Ég leit á blóma- og kertaskreytingar sem voru í hönnun og vinnslu og skellti mér áhyggjulaus í gufu og nudd. Um þrjúleytið eftir tveggja tíma inniveru í baðhúsi hótelsins leit veðrið hins vegar ekki lengur jafn vel út. Ský voru komin á himininn og vindur farinn að rífa óþægilega mikið í dúkana. Sá sem var ábyrgur fyrir veislunni fyrir hönd hótelsins virtist hinsvegar minna stressaður. Sagði að vindinn myndi lægja eftir klukkutíma. Klukkutíma síðar þegar stólar voru einnig farnir að fjúka um koll og grá skýin á himninum virtust í engu undanhaldi var ég ekki svo viss um lengur að hægt yrði að halda veisluna utanhúss og talaði aftur við veislustjórann sem enn hélt í þá traustu trú sína að vindinn myndi lægja. Aðrir kostir voru heldur ekki inni í myndinni þar sem salur hótelsins var þegar upptekinn undir annað brúðkaup sem haldið yrði daginn eftir. Þegar ég innti hann hinsvegar eftir hvaðan hann hefði þá staðfestu að vindinn myndi lægja þá sagði hann “inshaa Allah” sem útlegst “ef Guð lofar”. Þessi staðfesting hans gerði mig örvæntingarfyllri en nokkrusinni, brúðkaupið mitt var nú undir Guði komið.

Á hárgreiðslustofunni heyrði ég endalaust gnauðið í vindinum og sá hvernig hárgreiðslukonan leit reglulega áhyggjufull út um gluggann. Aromatheropie nuddið nokkrum tímum áður sem átti að virka svo slakandi hafði gersamlega misst alla verkun, nú yrði bara að láta vaða hvernig sem færi. Það væri engan veginn hægt að færa tvöhundruð manna veislu um stað með svo stuttum fyrirvara.

Ég hnýtti klút um hárið á mér í tilraun til að halda greiðslunni á leið minni í gegnum garðinn að brúðarsvítunni þar sem ég tæki mig til fyrir kvöldið. Maðurinn minn sem einnig var kominn á hótelið var með annað herbergi til afnota til að taka sig til. Mamma renndi straubolta fimlega yfir kjólinn sem hafði ferðast með mér frá París við misjafnar aðstæður, systir mín sem lært hefur förðunarfræði tók fram bursta, liti, púður og gloss. Egypsk förðun og þá sérstaklega kvöld- eða brúðarförðun er oft verulega yfirdrifin og ég sem yfirleitt nota ekki mikinn farða var ekki viss um að hún myndi henta mér frekar en látlausum kjólnum sem ég myndi bera.

Á þessari stundu var ég ekki lengur viss um hvað ég væri að koma mér út í. Jafnvel þótt gestum hafi fækkað á seinustu stundu úr 250 í um 200 vegna andláts í fjölskyldunni þá var þetta samt sem áður margt fólk og flestir ótengdir mér, fjarskyldir ættingjar ásamt embættismönnum og gömlum starfsfélögum tengdaföður míns. Við hverju var búist af mér? Er ég of frábrugðin í þeirra augum? Er kjóllinn minn of fleginn eða opinn? Ég var stressuð.

Allt var að smella á sinn stað, vinkona mín festi á mig slörið og beið með mér eftir að maðurinn minn nýorðinn og verðandi kæmi ásamt ljósmyndurunum til að taka þessar klassísku brúðarmyndir af okkur áður en við kæmum í veisluna. Bankað var á hurðina og þar voru ljósmyndararnir mættir en hvorki sást tangur né tetur af manninum mínum. Klassískt egypskt skipulag, sem fór óneitanlega í mínar fínustu á stundu sem þessari. Þrátt fyrir miður gott veður hafði ég lítinn áhuga á að svítan fylltist af einhverjum köllum sem ég þekkti ekki neitt og bað vinkonu mína að láta þá bíða úti þar til búið væri að finna manninn minn.

Þar sem ég stóð úti á verönd svítunnar og beið sá ég að það var farið að rigna. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Gestirnir voru farnir að tínast að og lítið annað hægt að gera en að hrista hausinn og sætta sig við það að brúðkaupið okkar yrði líklegast eftirminnanlegra en við höfðum gert ráð fyrir.

Aftur var bankað á hurðina og í þetta sinn var það maðurinn minn með einkaþjóni sínum sem hótelið útvegaði honum fyrir kvöldið. Ljósmyndarinn, fullorðinn kall með fastar skoðanir á því hvernig brúðhjónum væri uppstillt fyrir slíka myndartöku kom sér fyrir með sínu tæknifólki. Uppkreist brosið á brúðarmyndunum af okkur í ónáttúrulegum pósum vitna til um líðan mína á þessari stundu. Gleymst hafði að huga að brúðarvendinum og notuðum við rósarvönd sem mamma hafði stillt á borð í svítunni fyrr um daginn. Á um hálftíma var myndatakan yfirstaðið. Þjónn mannsins míns kom hlaupandi með vöndinn sem búin hafði verið til á meðan ljósmyndatökunni stóð og okkur var ekkert lengur að vanbúnaði.

Við áttum nokkrar mínútur ein í svítunni á meðan við biðum eftir farartækinu sem flytti okkur að aðalinnganginum og veislusvæðinu. Þessar mínútur voru kærkomnar og gáfu mér ráðrúm til að slaka aðeins á. Hrifning mannsins míns á útliti mínu hjálpaði einnig mikið upp á sjálfstraustið. Núna var mér nokkuð sama hvað aðrir kynnu að hugsa.

Til að flytja okkur að bakdyrum hótelsins þar sem við myndum læðast inn í sitthvoru lagi til að undirbúa innkomuna kom lítill golfbíll af hótelinu og náði í okkur. Óskreyttur og án nokkurs íburðar. Þar sem við þeystum um stíga sundlaugagarðsins á hótelinu í golfbíl og brúðarskrúða gat ég ekki annað en brosað að andstæðunum.

Rigningin var hætt og vindinn hafði lægt þónokkuð. Maðurinn minn stökk af nokkrum metrum á undan mér en ég var leidd í gegnum blómabúðina að aðalmóttöku hótelsins þar sem pabbi beið mín til að leiða mig að manninum mínum sem nú hafði komið sér fyrir í garðinum. Pabbi leiddi mig út í garðinn og ljóskastararnir skullu á okkur. Nú þýddi ekkert að vera með einhvern sviðskrekk við vorum atriði kvöldsins og ekkert annað að gera en að brosa til áhorfendana sem stóðu spenntir og horfðu á okkur með hrifningu. Allt þetta kvöld vorum við eins og þjóðhöfðingjar. Ég hef það ekki á tilfinningunni að hafa verið partur af eigin brúðkaupsveislu heldur var ég “atriðið” sem fólkið var komið til að fylgjast með.

Allt var þaul skipulagt og hvert atriðið tók við af öðru, fyrst var okkur færður sætur drykkur sem við drukkum fyrst úr sitthvoru glasinu, síðan gáfum við hvort öðru að drekka og að lokum drukkum við úr sama glasinu með sitthvoru rörinu. Þetta er táknræn athöfn að tvennu leyti, bæði er það sykraði drykkurinn sem er tákn gleðinnar og að drekka loks úr sama glasi sem táknar að héðan í frá myndum við deila okkar samani.


Eftir drykkinn var brúðardansinn stiginn, rólegt lag sem við höfðum valið sjálf og þar fast á eftir fylgdi egypskt danslag, okkur báðum að óvörum. Allir gestirnir stóðu enn í hring í kringum okkur og horfðu á. Nú reyndi á að sanna sig í hversu egypsk ég væri! Ekki viss um að útkoman hafi verið eftir væntingum, kanski voru allir samt bara ánægðir að útlendingurinn ég reyndi.
Eftir að hafa gengið hringinn og heilsað hverjum og einum var tertan skorin, brúðarvendinum kastað og hlaðborðið opnað. Samkvæmt egypskum hefðum þykir ekki mjög smart að bjóða bara upp á einn rétt og hvort sem maður er boðinn í heimahús eða annað þá er iðulega margréttað þar sem allt er sett í einu á borðið.
Vindinn hafði lægt svo hægt að kveikja á kertum á borðunum. Við höfum bæði fengið að heyra að rigning boði lukku sem og að vindur á brúðkaupsdag sé fyrir sterku sambandi. Við getum ekki verið annað en ánægð með slíkt ferðanesti hvort sem eitthvað er til í því eða ekki.
Þó svo veislan öll hafi verið mér jafn framandi og þeim íslensku gestum sem komu til að gleðjast með okkur þá var það þeim að þakka hversu yndislegt kvöldið og öll dvölin var. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir að gera kvöldið eins yndislegt og hægt var að hugsa sér og gera giftinguna að sannkallaðri fjölskyldugiftingu tveggja þjóða. Takk.